6/12/2024

Góð ráð við val á leikföngum

Til þess að leikur barna geti orðið hvað ánægjulegastur og öryggi þeirra tryggt, er mikilvægt að neytendur hafi í huga að velja leikfang sem hæfir barninu og að leikfangið uppfylli þær öryggiskröfur sem til þess eru gerðar.

Fyrir neðan má sjá nokkur ráð sem gott er að hafa í huga við val leikföngum.

Heiti stofnunar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

Leikföng eiga að vera CE merkt. Á mynd fyrir neðan má sjá rétt CE merki. CE merki á að vera fast á leikfanginu, á merkimiða eða á umbúðum. CE merkið gefur til kynna að leikfangið hefur verið prófað og það talið uppfylla kröfur Evrópusambandsins um öryggi, heilsu og umhverfisvernd. Leikföng eiga einnig að vera merkt framleiðanda og framleiðslulandi.

Veljið leikföng sem hæfir aldri barnsins, hæfni og þroska. Leikföng sem ekki eru ætluð aldri barnsins geta valdið hættu. Lesið vandlega og fylgið ráðleggingum um aldur.  Munið að ef leikfang er merkt að það henti ekki aldri barns yngra en 3ja ára þá er það aðvörun en ekki ráðlegging.

Hugum að efnum. Mesta hætta við skaðleg efni er í mjúkum plastleikföngum og rafmagnsleikföngum. Í þeim getur fundist hormónaraskandi efni og þungmálar í of miklu magni. Gott er að miða við að forðast plast sem er mýkra en Lego kubbur.

Varist smáa hluti. Börn yngri en 3ja ára eiga ekki að leika með leikföng sem innihalda smáa hluti. Kannið hvort tuskudýr með augu, nef og aðrir smáhlutir séu kirfilega festir. Leikfang sem eru ætluð börnum eldri en 3ja ára eiga ekki að vera innan seilingar barna yngri en 3ja ára.

Fylgið leiðbeiningum. Mikilvægt er að fylgja upplýsingum um hvernig á að setja saman og nota leikfangið. Geymið leiðbeiningar, ef leikfang er gefið áfram er mikilvægt að leiðbeiningar fylgi.

Kaupið leikföng frá traustum söluaðila. Traustir söluaðilar er umhugað um vörurnar sem þeir
selja og hjá þeim er einnig hægt að skila vöru. Minna traustum söluaðilum hættir til að vanrækja þætti er varða heilsu og öryggi og gætu einnig verið að selja fölsuð leikföng. Sérstaklega skal gæta að vörum sem seldar eru í vefverslunum, leikföngum sem eru ókeypis og leikföngum sem keypt eru á nytjamörkuðum eða nytjaverslunum.

Leiðbeinið börnum við leik. Gangið úr skugga um það að leikið sé með leikföngin líkt og gert er ráð fyrir og að það hæfi aldri og getu barnsins. 

Skoðið leikföngin reglulega. Skoðið leikföngin reglulega til að kanna hvort þau hafi orðið fyrir hnjaski sem gæti leitt til þess að barnið gæti meitt sig á því eða valdið annarri hættu gagnvart heilsu þess eða öryggi. Fleygið strax leikföngum sem eru brotin eða skemmd.

Fjarlægið allar umbúðir. Fjarlægið allar umbúðir, meðal annars plastpoka, merkimiða og annað sem tilheyrir ekki leikfanginu, en geymið leiðbeiningarnar. Tryggið að yngri börn leiki sér ekki með plastumbúðir þar sem þær geta valdið hættu á köfnun.

Kennið börnum ykkar að taka til eftir sig til að koma í veg fyrir slys. Ekki skilja eftir leikföng í tröppum eða á stöðum þar sem umgengi er mikil.

Tilkynnið varasöm leikföng. Hægt er að senda tilkynningu um hættulegar vörur í gegnum Vöruvaktina. Hættulegar vörur sem teknar hafa verið á markaði má bæði finna á Vöruvaktinni og Safety Gate tilkynningarkefi ESB.

Deildu