20/12/2024

Flugeldar um áramót

Hversu marga flugelda ætlar þú að skjóta upp í ár?
Þú veist vonandi hvernig á að meðhöndla sprengiefni á öruggan hátt, ekki satt? Við notkun flugelda er margt sem þarf að hafa í huga.

HMS hefur tekið saman nokkur lykilatriði sem hjálpa þér og þínum að hefja nýja árið slysalaust

Heiti stofnunar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)

Vöruheiti

Flugeldar

Hvað ber að varast

Það er mikilvægt fyrir neytendur að vita að flugeldar eiga að vera CE-merktir. CE-merkingin tryggir að varan uppfylli evrópskar öryggiskröfur.

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

  • Lestu og fylgdu leiðbeiningum á umbúðum skoteldsins.
  • Notaðu öryggisgleraugu. Verndaðu augun þín,  þau eru viðkvæm og slysin geta verið alvarleg.
  • Virtu fjarlægðarmörk. Gakktu úr skugga um að allir séu í öruggri fjarlægð.
  • Bíddu með áfengi þar til eftir sprengingar. Dómgreindarskortur vegna áfengis hefur oft leitt til slysa.
  • Sprengjur eru ekki fyrir börn. Fullorðnir bera ábyrgð á að fylgjast með og leiðbeina.
  • Ef skoteldur virkar ekki: Bíddu í 15 mínútur og helltu þá vatni yfir hann.
  • Ekki kveikja á skoteld í höndum ef skoteldurinn er ekki með handfang, eins og stjörnuljós og handblys

Öryggi skiptir máli!
Auðveldasta leiðin til að koma í veg fyrir slys er að fylgja leiðbeiningum á umbúðum. Þar finnur þú mikilvægar upplýsingar um hvernig á að kveikja í flugeldinum, réttar fjarlægðir frá áhorfendum, mannvirkjum og gróðri, og hvað skal gera ef flugeldurinn virkar ekki.

Notkun öryggisgleraugna ætti að vera sjálfsagður hlutur. Margir hafa misst sjónina í flugeldaslysum.

Forðastu slysin – haltu þér edrú.
Mörg slys eiga sér stað þegar fólk hefur drukkið of mikið áður en það byrjar að sprengja. Ef þú getur ekki beðið með að fá þér áfengi er best að sitja hjá og njóta sýningarinnar í öruggri fjarlægð.

Mundu aldurstakmarkanir.
Skoteldar eru hættuleg sprengiefni og eru ekki fyrir börn. Jafnvel saklaus stjörnuljós geta verið hættuleg, þar sem þau brenna við um 1000 °C.

Allsgáður og ábyrgur fullorðinn einstaklingur ætti alltaf að hafa eftirlit með börnum þegar þau nota flugelda. HMS óskar þér og þínum öruggra og gleðilegra áramóta!

Deildu