17/3/2025

Prófanir á matarstólum fyrir börn

Neytendur eru hvattir til að vera vakandi fyrir öryggisstöðlum við kaup á matarstól fyrir börn og tryggja að þeir uppfylli allar viðeigandi öryggiskröfur.

Samræmd starfsemi um öryggi vöru (CASP) gerir öllum markaðseftirlitsyfirvöldum ríkja EU/EES kleift að vinna saman að því að efla öryggi vara sem settar eru á innri markað Evrópu. Ísland var eitt af 11 ríkjum sem tók þátt í slíku verkefni á síðasta ári sem snéri að matarstólum fyrir börn. Alls voru 60 matarstólar prófaðir samkvæmt evrópska öryggisstaðlinum EN 14988:2017 + A1:2020. 

Niðurstöðurnar sýndu að 48 af 60 stólum (80%) stóðust ekki prófun. Þegar frávik vegna merkinga (kafli 9 í staðlinum) voru undanskilin, reyndust 24 stólar (40%) ekki uppfylla kröfur. Ísland sendi 5 matarstóla til prófunar og féllu þeir allir. Þrír stólar féllu einungis á merkingum, viðvörunum og leiðbeiningum en hinir tveir féllu einnig efnislega.

Nú þegar hefur verið brugðist við þessum ágöllum. Innkalla þurfti einn stól þar sem hann var talin sérstaklega hættulegur þar sem hann féll á stöðugleika.

Heiti stofnunar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)

Vöruheiti

Matarstólar fyrir börn

Hvað ber að varast

  • Tryggðu að stóllinn sé stöðugur og að hægt sé að festa barnið á öruggan hátt.
  • Ekki nota gallaðan stól og tilkynntu galla til seljanda og eftirlitsstjórnvalda.
  • Kannaðu hvort litlir hlutir séu til staðar sem gætu lostnað og valdið köfunarhættu.
  • Kannaðu hvort hættuleg op séu til staðar þar sem útlimir barnsins gætu festst eða barnið orðið fyrir meiðslum.
  • Ekki leyfa barni að sofa í matarstólnum.
  • Vertu meðvitaður um að stóllinn getur oltið ef barn nær að spyrna fótunum við matarborð eða annan fastan hlut.
  • Notaðu alltaf öryggisbeltið.
  • Ekki skilja barnið eftir eftirlitslaust í matarstólnum.

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

  • Matarstólar fyrir börn þurfa að uppfylla staðal EN 14988:2017 + A1:2020.
  • Mikilvægt er að skoða merkingar, viðvaranir og leiðbeiningar vörunnar, auk þess að tryggja að stóllinn sé stöðugur og veiti barni fullnægjandi öryggi.

Deildu