Innflutningur til einkanota á ökutækjum utan Evrópu
Ert þú að hugsa um að flytja inn bíl utan Evrópu til einkanota? Hafðu í huga að þú gætir þurft að borga fyrir úrbætur vegna framleiðslugalla.
Til landsins eru reglulega fluttir inn bílar og önnur ökutæki utan Evrópu og er það í sjálfu sér í góðu lagi svo lengi sem þeir uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til ökutækja á Íslandi. Til dæmis gæti verð á bandarískum bílum þótt eftirsóknarvert auk þess sem þeir geta verið aflmeiri og þótt flottari. Beinir HMS til þeirra sem huga að einkainnflutningi ökutækja að þeir gætu borið persónulega ábyrgð á framleiðslugöllum sem geta komið upp.

Hvað ber að varast
Líkt og með aðrar vörur eru það framleiðendur sem bera ábyrgð á framleiðslugöllum ökutækja. Framleiðandi ber þó takmarkaða ábyrgð á ökutæki sem er flutt á milli markaðssvæða af framtaksömum einstaklingum. Því gæti framleiðandi eingöngu boðið upp á viðgerðir á því markaðssvæði sem ökutækinu var ætlað að vera á. Þá getur komið upp sú staða að innflytjandi ökutækisins þarf að koma því aftur á upprunalegt markaðssvæði þar sem framleiðandi sinnir úrbótum eða að hann þurfi að greiða viðgerðaraðila hérlendis sjálfur fyrir viðgerð vegna framleiðslugalla.
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
Sá aðili sem flytur inn bílinn losnar ekki undan ábyrgð með því að selja bílinn því staða hans sem innflytjandi breytist ekki við það. Því gæti viðkomandi þurft að borga fyrir viðgerð á bíl sem hann á ekki lengur.
Deildu