Leikföng úr plasti
Algengt er að plast sé notað í leikföng en það er ódýrt, létt og fjölhæft. Plast er hins vegar ekki eitt efni heldur oftast blanda af efnum til að ná fram eiginleikum sem þarf hverju sinni t.d. litarefni, mýkiefni, herðiefni og stundum lyktarefni. Sum efni sem algengt hefur verið að nota í plast geta verið skaðleg á meðan önnur teljast skaðlaus. Vandinn er að ógrynni er af efnum sem eru í notkun og hafa ekki verið rannsökuð nægilega til að fullvissa um hvort efnin séu skaðlaus eða ekki.
Heiti stofnunnar
Umhverfisstofnun
Vöruheiti
Leikföng úr plasi
Hvað ber að varast
Mikilvægt er að huga að efnum í umhverfi barna þar sem þau eru viðkvæmari fyrir áhrifum efna en fullorðnir. Mörg börn stinga höndum eða hlutum upp í munninn við leik og einnig eyða þau miklum tíma í leik á gólfinu en efni geta losnað úr vörum og loðað við ryk.
Mesta áhættan á snertingu við skaðleg efni er í mjúkum plastleikföngum og rafmagnsleikföngum en í þeim er algengt að finnist þekkt hormónaraskandi efni og þungmálmar í of miklu magni. Gott er að miða við að forðast plast sem er mýkra en LEGO-kubbur. Að auki skal sýna varkárni með leikföng sem eru eldri en 2007 því þá voru settar strangari reglur um efnainnnihald leikfanga, einkum þalöt í mjúki plasti. Kröfurnar urðu enn stífari árið 2013 og ýmis ilmefni sem geta verið ofnæmisvaldandi voru bönnuð og/eða takmörkuð.
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
Hvað er þá gott að hafa í huga varðandi plastleikföng?
Hér koma nokkur góð ráð:
- Forðumst leikföng úr mjúku plasti - sérstaklega þau sem voru framleidd fyrir 2007 (þá voru settar strangari reglur). Ef þið viljið sýna auka varkárni þá voru kröfurnar um efnainnihald hertar meira árið 2013.
- Þvoum og loftum um ný leikföng fyrir notkun þegar það er hægt til að losna við efnaleifar úr framleiðsluferlinu og rokgjörn efni.
- Kaupum leikföng sem henta aldri barnsins en leikföng sem eru merkt fyrir börn undir 3 ára þurfa að uppfylla fleiri skilyrði en önnur leikföng. Þetta er einkum vegna þess að ungabörn eiga það gjarnan til að stinga hlutum í munninn.
- Veljum umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu þegar það er í boði.
- Forðumst leikföng sem eru hættumerkt.
- Verum gagnrýnin á vörur sem framleiddar eru utan EES þar sem efnalöggjöfin í Evrópu er með þeim strangari í heiminum.
- Forðumst að leyfa ungum börnum að leika sér með hluti sem eru ekki leikföng eins og t.d. raftæki. Innihald efna í slíkum vörum uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til efna í barnaleikföngum.
- Ryksugum og þurrkum af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.
Deildu