Íþróttafatnaður úr bakteríudrepandi efni
Íþróttafatnaður er stundum auglýstur þannig að hann vinni gegn ólykt (e. anti-odor) eða jafnvel sem bakteríudrepandi (e. anti-bacterial), sem getur hljómað vel í eyrum fólks sem er duglegt að hreyfa sig. Til þess að ná fram þessum eiginleika hefur bakteríudrepandi efni verið bætt í fatnaðinn við framleiðslu, t.d. silfri.
Heiti stofnunnar
Umhverfisstofnun
Hvað ber að varast
Slíkar vörur geta verið ofnæmisvaldandi. Einnig geta þær verið skaðlegar umhverfinu þar sem bakteríudrepandi efnið skolast úr fatnaðinum við hvern þvott og losnar með skolvatninu út í umhverfið.
Umdeilanlegt er hvort að fatnaður sem hefur verið meðhöndlaður með bakteríudrepandi efni hafi í öllum tilvikum þau áhrif sem fullyrt er um. Einnig hversu marga þvotta þarf til að efnið hafi allt skolast úr og varan hafi ekki lengur tilætluð áhrif. Markaðssetning meðhöndlaðs fatnaðar er ekki háð sérstöku leyfi frá yfirvöldum svo það er ekki víst að áhrif bakteríudrepandi efnanna hafi verið rannsökuð nægilega vel.
Ef fatnaður er í ríkari mæli meðhöndlaður með bakteríudrepandi efni getur það að lokum leitt til þess að bakteríur verði ónæmar fyrir viðkomandi efni.
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
Staldra við og hugsa hvort að þú sért bættari með þennan bakteríudrepandi eiginleika í vörunni. Í flestum tilvikum má forðast bakteríur og ólykt með því að þvo fötin reglulega. Áhöld má halda bakteríufríum með sjóðandi vatni og sápu.
Betra væri að velja fatnað úr efni sem hefur náttúrulega bakteríudrepandi eiginleika eins og t.d. ull eða bambus.
Við val á vörum, leitaðu eftir merkjunum OEKO TEX®, Svaninum eða Evrópublóminu.
Hugtök sem gefa til kynna að varan hafi verið meðhöndluð með bakteríudrepandi efni:
- bakteríudrepandi (e. Antibacterial)
- bakteríuhemjandi (e. Bacteriostatic)
- lyktarlaus (e. Odourless)
- vinnur gegn ólykt (e. Anti-odour)
Aðrar vörur sem geta verið meðhöndlaðar með bakteríudrepandi efnum eru t.d. skór, hreingerningarklútar, skurðarbretti, sturtuhengi, dýnur og púðar.
Deildu